Snúðar

Ég ætla að byrja strax á því að segja að þessi uppskrift er ekki fyrir fólk í megrun eða þá sem eru viðkvæmir fyrir sykri.  Þetta er ein af þessum uppskriftum þar sem ég fer „all-in“ í sætunni og djúseríinu.

Það sem þú byrjar á að gera er að sækja skál og pott.

Í skálina (endilega hafa þetta hrærivélarskál ef þú átt þannig, nota krókinn þegar deig er hnoðað) fer:

  • 5 bollar af hveiti
  • 1 tsk salt

Blanda þessu létt saman.

Í pottinn fer:

  • 3 msk ger
  • 2 bollar mjólk
  • 150 g smjör
  • 1 bolli sykur

Hita þannig að mjólkin verði volg og smjörið linist.

Best er að hella blöndunni í þurrefnin meðan vélin er á hægum hraða og leyfa þessu að blandast rólega saman. Ekki ofvinna deigið. Þegar þetta er orðið fallega blandað og mjúkt.

Setja svo skálina á hlýjan stað með stykki yfir í 60 mínútur.

Þegar deigið hefur hefast er ekkert annað eftir en rúlla því út, hluta fyrir hluta ef þú vilt litla snúða en öllu í einu ef þú vilt þykka stóra.

Fyllingin í snúðana er gerð í potti og þú gætir viljað breyta hlutföllum eða jafnvel þurft að búa til meira:

  • 200 g smjör
  • 1-2 bolli sykur
  • kanill

Hitað og hrært vel saman.  Smurt ofan á deigið í þeirri þykkt sem þú vilt.  Deiginu rúllað upp og skorið í jafnstóra bita.

Bakað í ofni við 200°C í ca. 15 mínútur eða þar til ofninn þinn hefur gert snúðana fallega gyllta.

Bókhveiti og byggmjölsbrauð

  • 1 bolli bókhveiti
  • 1/2 bolli byggmjöl
  • 1/2 bolli hveitikím
  • salt
  • 3 tsk vínsteinslyfitduft
  • 1 bolli AB mjólk
  • 1 bolli sjóðandi heitt vatn

Blanda saman þurrefnunum, setja svo AB mjólkina útí og hræra pínu, síðan sjóðandi vatnið og hræra ögn betur en það er alveg lykilatriði að hræra sem minnst.

Baka á 200°c í 30 mínútur.  Kælið aðeins.

Þetta er uppskrift sem gefur 2 lítil brauð og 1 stórt, mér finnst hins vegar betra að hafa þau lítil.

4 farin og gott brauð

Allt í góðum gír hér, þvílíkur munur að vera laus við pepsi maxið! Ég borða miklu minna núna og er ekki í stöðugum blóðsykursrússíbana, þó ekki sé sykur í PM þá er gervisykurin greinilega ekki hollur fyrir mig og ég þoli greinilega mjög illa koffín.

Ég fékk mér kaffi um daginn því ég var svo þreytt og fékk aftur svona ,,alveg að líða yfir mig og skelf að innan” tilfinningu eins og var næstum daglega meðan ég drakk PM daginn inn og út og þurfti að leiðrétta með áti. Nú eru rúmar 3 vikur síðan ég hætti í PM.

Sykur er farinn úr mataræðinu og það er mjög fínt, ég borða auðvitað samt enn ávexti og mikið af eplum sérstaklega.

Langar að deila uppskrift að uppáhalds brauðinu mínu, þetta eru tvö pínulítil brauðform eða eitt venjulegt.

  • 2 bollar spelt (fínt og/eða gróft)
  • 1 bolli hveitikím eða kókosmjöl
  • 1 msk sesamfræ (má nota önnur og auðvitað meira eða minna eftir smekk)
  • 3 tsk lyftiduft (ég nota alltaf vínsteins)
  • salt (maldon flögur)
  • 1 bolli AB mjólk (má nota súrmjólk, nýmjólk, soja, rís etc.)
  • 1 bolli sjóðandi vatn

Þetta á að hræra sem allra minnst rétt blanda þessu saman og setja í spreyjað/smurt form og baka á 200° í 30 mínútur (kannski misjafnt eftir ofnum, bara þangað til ekkert klessist á prjón sem stungið er í). Kæla aðeins áður en skorið og borðað með hnausþykku lagi af íslensku smjöri og góðum osti……. nei djók það er spari:)