Kínóa og Kartöfluréttur
júlí 24, 2011 Færðu inn athugasemd
Kínóa er gott korn, mjög próteinríkt og auðvelt í matreiðslu. Mér finnst það æði inn í paprikur og með grænmetispottréttum. Sumir nota það í grauta en mér finnst það frekar ólystugt.
Það er ég gerði í dag var meðlætisréttur í eldföstu: Kartöflur, tómatsósa, kotasæla og kínóa plús smá ostur.
- Fyrst setti ég hálfan bolla af kínóa í pott og einn og hálfan af vatni á móti, smá Maldon og sauð í ca. 20 mínútur
Ég smurði mótið að innan með kókosolíu því hún þolir svo mikinn hita án þess að skemmast, skar 4 kartöflur í sneiðar (betra að hafa þær soðnar) og raðaði þeim á botninn. Auðvitað má nota sætar kartöflur, ég átti bara þarna afgang af venjulegum.
Svo bjó ég til tómatsósu í blandaranum
- 1 ds saxaðir tómatar
- 1 laukur
- 1 paprika
- Maldon
- Svartur pipar
- Cayenne
Setti mixið í pott og sauð það aðeins, lét það svo kólna aðeins og setti 2 msk af ólífuolíu út í og hrærði saman.
Síðan setti í 2/3 af tómatsósunni yfir kartöflurnar í eldfasta mótinu.
- Restina af sósunni setti ég saman við kínóað og bætti við þetta 1 lítilli dós af kotasælu – þetta hrærði ég saman og setti svo yfir tómatsósuna.
Leyfar af oststykki fengu að fara ofan á þetta og örstutt inn í ofn til að bræða ostinn, yfir setti ég svartan pipar, Maldon og Mesquite krydd – best að setja bara á grill.
Tekið út og látið kólna, best að borða volgt eða stofuheitt en það er reyndar bara minn smekkur því ég borða ekki heitan mat. Þetta gums er gott með kjúkling, rækjum og túnfisk og líklega fleiru. En líka svaka gott bara eintómt með meiri kotasælu eða eggjaköku.